Evrópska flugfélagið Air France-KLM hefur undirritað viljayfirlýsingu við evrópska flugvélaframleiðandann Airbus þess efnis að félagið hyggist kaupa allt að 60 vélar af gerðinni Airbus A350 XWB (Extra Wide Body).

Samkvæmt þessu er Air France-KLM orðinn stærsti kaupandi A350 vélanna en til stendur að fyrsta vélin verði tilbúin til afhendingar seinni hluta ársins 2013.

Líkan af Airbus A350XWB.
Líkan af Airbus A350XWB.
© Gísli Freyr Valdórsson (VB MYND/GFV)

Líkan af Airbus A350XWB.

A350 er ætlað að keppa við Boeing 777 og Boeing 787 Dreamliner sem eru taldar með umhverfisvænni vélum á markaði. Skrokkur vélarinnar verður að mestu búinn til úr koltrefjum og á það samkvæmt gögnum frá Airbus að gera vélina léttari og þar með umhverfisvænni. Gert er ráð fyrir að drægni vélarinnar verði 15 þúsund kílómetrar. Þá er gert ráð fyrir að vélin eyði um 17-18% minna eldsneyti en Beoing vélarnar.

Fyrir utan það að vera ekki tveggja hæða er hönnun A350 vélarinnar að mörgu leyti byggð á hönnun A380 vélarinnar. Þannig verður flugstjórnarklefinn svo að segja hinn sami auk þess sem grunnskrokkur, farþegarými og allt rafmagnskerfi vélarinnar er líkt og það sem er í A380.

Gert er ráð fyrir þremur línum af A350 vélinni. Þær eru A350-800 sem mun sitja um 270 farþega, A359-900 sem mun sitja um 314 farþega og A350-1000 sem mun sitja allt að 350 farþega.

Airbus vélar Air France-KLM telja nú um 190. Þar af á félagið sex A380 vélar, 15 A340, 58 A320 og rúmlega 60 vélar af gerðinni A319 og A318.

Nú þegar hafa 567 A350XWB vélar verið pantaðar af 35 viðskiptavinum.