Evrópska flugfélagið Air France-KLM staðfesti í vikunni pöntun á 25 Boeing 787-9 Dreamliner flugvélum. Félagið á þegar pantaðar 15 breiðþotur frá Boeing af gerðinni Boeing 777.

Þá skrifaði félagið einnig undir kaupréttasamninga á 25 Boeing 787 vélum til viðbótar. Frá þessu er greint á vef Flightglobal. Fyrsta vélin verður afhent félaginu árið 2016.

Air France-KLM tilkynnti í september sl. að félagið áætlaði að panta 110 breiðþotur frá Boeing og Airbus. Um var að fyrrnefndar 787 vélar frá Boeing og eins Airbus 350XWB vélar. Þannig stóð til að panta 50 vélar, 25 vélar frá hvorum framleiðanda, og skrifa undir viljayfirlýsingu um 60 vélar til viðbótar. Þó hefur ekki verið gengið frá samkomulagi við Airbus.