Air Koryo, ríkisflugfélag Norður-Kóreu, fær eina stjörnu á vefnum Skytrax þar sem notendur geta gefið hinum ýmsu þáttum í þjónustu flugfélaga einkunn. Ríkisflugfélagið er það eina í heiminum sem fær svo slæma útreið á síðunni. Þetta er fjórða árið í röð sem Air Koryo rekur lestina meðal flugfélaga heims á vefsíðunni.

Samkvæmt umfjöllun The Economist flýgur Air Koryo aðeins til fjögurra staða - þriggja borga í Kína ásamt Vladivostok í Rússlandi. Þó flugfélagið fái slæma einkunn á Skytrax státar það af nokkuð góðri flugsögu með tilliti til öryggis. Einungis eitt banvænt slys hefur átt sér stað í þrjátíu ára rekstrarsögu félagsins. Þrátt fyrir þetta lýsa margir farþegar því á Skytrax að lítil áhersla hafi verið lögð á öryggismál.

Á meðal þeirra þátta í þjónustunni sem Air Koryo fær lægstu einkunn fyrir eru internetaðgangur og matur í betri stofum félagsins á Pyongyang-flugvelli. Air Koryo fær einnig lægstu mögulegu einkunn fyrir samskipti starfsfólks við farþega um borð, fyrir afþreyingarefni um borð og tungumálakunnáttu starfsfólks.

Í frétt WCVB segir að það sé bannað að taka myndir um borð. Einn farþegi var skammaður fyrir að brjóta dagblað þannig að andlit Kim Jong Un, stofnenda landsins, afmyndaðist. Eina afþreyingarefnið um borð eru upptökur af stúlknakór syngja óð til leiðtoga landsins, auk norður-kóreskra teiknimynda. Maturinn er sagður mjög slæmur og vatn sem þéttist í kælikerfum flugvélanna er sagt leka á sætin og á farþega með tilheyrandi óþægindum.

Viðskiptablaðið birti á dögunum myndir af nýjum og glæsilegum alþjóðaflugvelli Pyongyang, höfuðborgar Norður-Kóreu.