Áætlunarflug Airberlin til Íslands mun á næsta ári hefjast 1. maí og standa yfir fram í lok október, og verður flugtímabilið því nærri tvöfalt lengra en í ár. Túristi greinir frá þessu.

Yfir sumarmánuðina er Airberlin yfirleitt umfangsmesta erlenda flugfélagið á Keflavíkurflugvelli. Flýgur flugfélagið til Íslands frá fjórum borgum í Þýskalandi og vélar frá dótturfélagi þess, flyNiki, koma hingað frá Vínarborg tvisvar í viku.

Theresa Krohn, upplýsingafulltrúi Airberlin, segir í samtali við Túrista að forsvarsmenn félagsins séu ánægðir með þróun flugleiða til Íslands. Það sé hins vegar ekki enn komið á dagskrá að starfrækja flugleiðirnar yfir vetrarmánuðina.