Þýska flugfélagið Airberlin hefur boðið upp á flug til og frá Íslandi síðustu tíu ár, en hingað til hefur félagið þó ekki boðið upp á reglulegar ferðir hingað til lands utan sumartíma. Á því hefur nú orðið breyting en frá og með deginum í dag er hægt að bóka flug með félaginu milli Berlínar í Þýskalandi og Keflavíkur í allan vetur. Túristi greinir frá þessu.

Þar kemur fram að flugvélar flugfélagið muni í vetur taka á loft frá Keflavíkurflugvelli um hádegi á fimmtudögum og síðdegis á sunnudögum. Með þessu verður Airberlin fyrsta þýska flugfélagið til að bjóða upp á áætlunarflug til Íslands yfir vetrarmánuðina. Af íslensku flugfélögunum er Wow air það eina sem býður upp á flug til Berlínar frá hausti og fram á vor.

Theresa Kahn, talskona flugfélagsins, segir í samtali við Túrista að það sé fagnaðarefni að geta nú boðið upp á heilsárstengingu milli Íslands og Tegel flugvallar í Berlín. Þar með gefist Íslendingum tækifæri á að nýta sér leiðakerfi Airberlin um allan heim.