Í ferðaþjónustu má segja að árið 2017 hafi verið ár Airbnb en gistinóttum sem fóru í gegnum leigumiðlunina fjölgaði um 96% á landsvísu samkvæmt tölum frá Stjórnstöð ferðamála. Fjölgunin var meiri á landsbyggðinni en hún nam 322% en fjölgunin á höfuðborgarsvæðinu var öllu hóflegri þótt hún hafi verið mikil eða um 42%.

Greiningaraðilar hafa velt fyrir sér hversu mikil áhrif Airbnb hafi á húsnæðismarkaðinn en engar nákvæmar tölur er að finna um hversu margar íbúðir eru alfarið nýttar undir Airbnb og þar af leiðandi ekki á húsnæðismarkaði. Mikið af gistingu á Airbnb er aðeins í boði hluta ársins eða þá að aðeins er í boði eitt herbergi á heimili. Því getur verið erfitt að áætla áhrifin nákvæmlega en greiningaraðilar virðast þó flestir sammála um að vöxtur Airbnb hafi ekki mikil áhrif á húsnæðismarkaðinn en bæti þó vissulega gráu ofan á svart.

Heildarfjöldi gistinátta á Airbnb á höfuðborgarsvæðinu er nú farinn að slaga hátt upp í heildarfjölda gistinátta á hótelum. Þannig var fjöldi gistinátta á landinu öllu á Airbnb um 3,19 milljónir en 4,26 milljónir á hótelum landsins árið 2017. Árið á undan voru gistinætur á Airbnb 1,63 milljónir á móti 3,87 milljónum gistinátta hótelanna. Bilið hefur því minnkað mikið og gistinóttum á hótelum fjölgaði hlutfallslega miklu minna á árinu 2017 en gistinóttum Airbnb. Þannig fjölgaði gistinóttum hótela á öllu landinu um 10,2% en fjölgunin var 6,2% á höfuðborgarsvæðinu og 17% á landsbyggðinni.

Ferðamönnum sem komu til landsins á mælikvarða brottfara útlendinga frá Keflavíkurflugvelli fjölgaði aftur á móti um 24,2% sem gefur vísbendingu um að ferðamenn hafi á árinu 2017 verið að leita í auknum mæli eftir gistingu á Airbnb þar sem hlutfallsleg fjölgun ferðamanna er öllu meiri en hlutfallsleg fjölgun gistinátta hótelanna.

Ef marka má tölur frá Stjórnstöð ferðamála sveiflast framboð gistingar á Airbnb nokkuð milli árstíða. Framboð gistinga þar sem allt heimilið var til leigu þ.e. að frádregnu framboði sérherbergja og sameiginlegra herbergja var að meðaltali tæplega 2.560 á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2017. Þegar minnst lét í febrúar var 1.861 heimili boðið út en þegar mest var í júlí voru þau 3.234.

Greiningardeild Arion banka telur að áhrif Airbnb gistinga á húsnæðisverð á höfuðborgarsvæðinu séu ofmetin þó þau séu vissulega til staðar og ýti að einhverju leyti undir vandann. Samkvæmt reikningum greiningardeildarinnar áætlar hún að um 1.100 íbúðir séu ekki á markaði vegna Airbnb í byrjun árs 2018.

Ef reikna má með að fjölgun íbúða sem ekki eru á markaði haldist í beinu hlutfallslegu sambandi við þróun gistinátta Airbnb má áætla að á árinu 2017 hafi um 327 íbúðir farið af markaði vegna Airbnb miðað við að 1.100 íbúðir séu nú af markaði vegna Airbnb. Í byrjun nóvember 2017 spáðu Samtök iðnaðarins því að 1.540 íbúðir yrðu fullgerðar á árinu 2017. Ef 327 íbúðir hafa svo farið af markaði vegna Airbnb nemur það um 21% af nýbyggðum íbúðum á höfuðborgarsvæðinu.

Í nýrri skýrslu Hagdeildar Íbúðalánasjóðs segir að uppsafnaður íbúðaskortur sé um 6.000 íbúðir sem veldur hvað mestum vanda á húsnæðismarkaði. Jafnframt að íbúðaþörf sé um 2.200 íbúðir árlega fram til ársins 2040 til þess að mæta mannfjöldaþróun og vinna á uppsöfnuðum skorti.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignablaðinu, sérblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .