*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Innlent 15. janúar 2018 14:17

Airbnb gæti orðið stærra en hótelin

Fjöldi gistinátta Airbnb voru um 268 þúsund á mánuði en hótelin seldu út 360 þúsund nætur á mánuði í fyrra.

Ritstjórn
epa

Umsvif gistimiðlunarinnar Airbnb jukust mikið í fyrra en félagið seldi um 268 þúsund gistinætur í hverjum mánuði í fyrra á meðan meðaltal gistinátta hótela á Íslandi nam um 360 þúsund. Frá þessu er greint á vef Túrista en þar segir að á nýliðnu ári hafi útseldar gistinætur á Airbnb tvöfaldast á sama tíma og hótelin juku við sig um fimmtung miðað við útreikninga sem byggja á tölum af Mælaborði ferðaþjónustunnar og vef Hagstofunnar. Þær tölur ná yfir fyrstu ellefu mánuði ársins.

Þá segir einnig að þegar allt árið verði gert upp megi gera ráð fyrir að Airbnb hafi selt um ríflega þrjár milljónir gistinga og að hótelnæturnar hafi verið rúmlega fjórar milljónir. Árið 2016 hafi hlutfall Airbnb numið um 43% fjölda gistinátta hótelanna en í fyrra hafi hlutfallið farið upp í 74%. Haldi vöxtur Airbnb áfram á þessum hraða er útlit fyrir það að gistimiðlunin selji fleiri nætur heldur en hótelin á Íslandi á árinu sem er að hefjast.