Hækkun fasteignaverðs vegna vaxtar í útleigu á Airbnb markaðnum er talinn nema um 2% á ári síðustu 3 árin. Það er um 15% af raunhækkun húsnæðisverð á tímabilinu að því er fram kemur í nýrri skýrslu frá hagfræðingunum Lúðvík Elíassyni og Önundi Páli Ragnarssyni sem birt hefur verið á heimasíðu Seðlabankans.

Þetta er töluvert meiri hækkun en til að mynda í Bandaríkjunum þar sem hækkunin er metin um 0,5%. Benda höfundarnir sem eru starfsmenn fjármálastöðugleikasviðs seðlabankans á að hækkunin nú hafi verið mest miðsvæðis í borginni, sem sé óvenjulegt á íslenskum fasteignamarkaði.

Jafnframt hafi öfugt við tímabilið 2004 til 2008, skuldasöfnun heimilanna ekki hækkað samhliða verðhækkunum á síðustu árum. Hafi verðhækkunin því ekki verið mikið umfram hækkun kaupmáttar. Báru þeir saman niðurstöðurnar á Íslandi við áhrif útleigu á vegum Airbnb í bæði Berlín Þýskalandi og í Kanada, og segja þeir ljóst að áhrifin séu umtalsverð.

Við lok árs 2017 hafi um 1676 íbúðir verið fráteknar fyrir útleigu á vegum fyrirtækisins, þar af 1214 á höfuðborgarsvæðinu. Þá er átt við íbúðir sem leigðar eru út í meira en 150 nætur á 12 mánaða tímabili. Þetta sé umtalsvert miðað við sambærilegar tölur fyrir New York borg eru milli 5.600 og 12.200 íbúðir.

Þetta hafi aukið þrýsting á húsnæðismarkaðinn í landinu en þessar tölur jafngildi um helmingi til tvoþriðju hluta nýrra íbúða árið sem komu á markaðinn árið 2016. Viðskiptablaðið fjallaði nýlega um áhrif Airbnb á fasteignamarkaðinn en greiningaraðilar hafa áætlað að þær íbúðir sem hafi farið af markaði undir útleigu í gegnum vefsíðuna jafngildi um fimmtungi af nýbyggðum íbúðum ársins 2017.

Mæla þeir Lúðvík og Önundur Páll með því að hagspár bankans verði endurskoðaðar með tilliti til þessa, sem og vegna innflutnings vinnuafls sem þeir mæla að hafi nálega tvöfalt meiri áhrif en útleiga í gegnum Airbnb á raunverð fasteigna.