Forsvarsmenn vefsíðunnar Airbnb.com ætla í hart við borgaryfirvöld í New York og borga lögfræðikostnað íbúa sem var sektaður af yfirvöldum fyrir að leigja út herbergi. Nigel Warren, sem býr í East Village í New York var sektaður um 2.400 dollara fyrir að leigja út herbergi eins og fjallað var um á vb.is fyrir skömmu. Dómari komst að þeirri niðurstöðu að Warren hafi með þessu rekið ólöglegt hótel. Fjallað er um málið á vefsíðu Wired.

Forsvarsmenn Airbnb ætla nú að láta lögmenn sína sjá um málaferlin fyrir hönd Warren og greiða fyrir kostnaðinn. David Hantman hjá Airbnb skrifaði á blogg fyrirtækisins í dag að úrskurður dómarans hafi sýnt að skýra þurfi lög í New York og gera þau sanngjarnari fyrir þá sem leigja út heimili til að ná endum saman.