Ferðamenn hér á landi keyptu ríflega 1,9 milljón gistinátta í gegnum deilivefsíður eins og Airbnb á síðasta ári að því er Hagstofan áætlar.

Tekjur slíkra gististaða námu um 14,7 milljörðum króna, sem er 25% aukning frá árinu 2016, þegar þær voru 11,8 milljarðar. Þessar tölur eru nokkuð lægri en áætlanir vefskröpunarfyrirtækisins Airdna sem gerði ráð fyrir að tekjurnar hafi verið 19,4 milljarðar árið 2017 og 9,3 milljarðar árið 2016.

Utan gistinga í gegnum Airbnb og slíkar síður voru svo 850 þúsund gistinætur þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistinguna.
Þar af 520 þúsund í bílum utan tjaldsvæða en um 330 þúsund í gegnum húsaskipti, hjá vinum og ættingjum eða væntanlega í gegnum deilisíður sem bjóða upp á svefnaðstöðu ókeypis, svokallað couchsurfing.

Helmingur gistinátta á hótelum og gistiheimilum

Eins og Viðskiptablaðið sagði frá fyrr í morgun áætlar Hagstofan að af um 607 þúsund gistinóttum hér á landi í marsmaánuði hafi um 107 þúsund þeirra verið í gegnum Airbnb eða sambærilegar síður. Tæplega 376 þúsund þeirra hafi svo verið á hótelum.

Á síðasta ári voru um helmingur gistinátta erlendra ferðamanna á hótelum og gistiheimilum, en 19% í gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síðar. Um 8,5% gistinátta voru svo utan hefðbundinnar gistináttatalningar, það er í bílum utan tjaldsvæða, húsaskiptum eða öðru líkt og áður segir.

Á fyrstu þremur mánuðum ársins 2018 voru gistinætur ferðamanna seldar í gegnum Airbnb og sambærilegar síður 307 þúsund og ógreiddar gistinætur erlendra ferðamanna 63 þúsund.