Landsbankinn hefur gefið út ítarlega greiningu á ferðaþjónustu á Íslandi í tengslum við ráðstefnu bankans um ferðaþjónustu sem haldin verður í dag. Hægt er að nálgast greininguna inn á vefsvæði bankans; Umræðunni.

Meðal þess sem kemur fram í greiningu Landsbankans er að Airbnb sé með um helming hótelmarkaðarins. Hagfræðideild bankans bendir á að ein helsta ástæða þess að erfitt sé að nálgast nákvæmar upplýsingar um heildarfjölda gistinátta ferðamanna sé sú að hluti framboðsins sé óskráður. Þá er meðal annars vísað til vaxandi hlutdeildar Airbnb og annarrar heimagistingar annars vegar og hins vegar, í minna mæli, útleigu á litlum ferðabílum (e. campers).

Hagstofan vanmetur

Hagfræðideild bankans hefur aflað sér ítarlegra gagna um starfsemi Airbnb í Reykjavík í gegnum greiningarfyrirtækið Airdna sem safnar samtímagögnum af vefsíðu Airbnb. Í greiningunni kemur fram að heimagisting í gegnum Airbnb í Reykjavík velti 46 milljónum evra árið 2016, eða um 6,1 milljörðum króna. Að mati hagfræðideildarinnar má ætla að allt að 15% af gistikostnaðinum fari beint til Airbnb í formi þóknana, eða um 900 milljónir króna, en óvíst er hvort að fyrirtæki af þessum toga greiði nokkurn skatt af starfsemi sinni hér á landi.

Einnig er bent á það að Hagstofan áætlar að rétt undir 670 þúsund gistinætur á höfuðborgarsvæðinu hafi verið óskráðar 2016 en útreikningar Landsbankans benda til þess að þær hafi verið ríflega 1,1 milljón, aðeins í Reykjavík og því mögulega allt að 1,4 milljónir á öllu höfuðborgarsvæðinu. Því kann hlutfallsleg aukning í þessari tegund gistingar að skekkja verulega mælingar á útgjöldum ferðamanna, sem og fjölda gistinátta.

Skipulag, regluverk & eftirlit

„Af upplýsingum sem Hagfræðideild aflaði sér má ráða að markaðshlutdeild Airbnb-gistingar af hótelmarkaðnum á höfuðborgarsvæðinu fer sífellt vaxandi. Þannig var markaðshlutdeild Airbnb yfir 40% síðastliðið sumar. Þar sem upplýsingar um Airbnb-gistingu í nágrannasveitarfélögum Reykjavíkur eru ekki taldar með má ætla að markaðshlutdeildin sé um 50%,“ segir í greiningu hagfræðideildarinnar. Að mati deildarinanr er nauðsnylegt að búa í haginn fyrir áframhaldandi fjölgun ferðamanna með því að fjárfesta frekar í gistirými og koma skipulagi, regluverki og eftirliti með heimagistingu í ástættanlegt form.