*

fimmtudagur, 19. september 2019
Innlent 29. júlí 2018 12:03

„AirBnB mesta áskorun hótelbransans“

Eigandi Hótels Akureyrar segir mestu áskorun hótelbransans vera AirBnB. Hann segist þó sjálfur ekki hræddur við samkeppni.

Júlíus Þór Halldórsson
AirBnB hefur rutt sér til rúms hér á landi samhliða sprengingunni í ferðamannafjölda.
epa

Furðulega horft á tölur
Daníel Smárason, framkvæmdastjóri og eigandi Hótels Akureyrar, segist vissulega finna fyrir því að hægt hafi á fjölgun ferðamanna. Hann segir þó umræðuna um þessi mál  rosalega pólitíska og hagsmunadrifna. Furðulega sé horft á tölur um aukningu eða samdrátt. Ef horft sé á aukningu nokkur ár aftur í tímann hafi hún verið mikið meiri en bransinn réði við. Svo fari aukningin að minnka og þá sé strax farið að tala um samdrátt.

Daníel hefur því ekki áhyggjur af samdrætti ferðaþjónustunnar, þótt eflaust kunni  hann að koma illa við einhverja, sem hafi gert viðskiptaáætlanir byggðar á jafn ævintýralegum vexti áfram næstu ár. „Við erum bara lítið fjölskyldufyrirtæki sem er búið að vera í þessu síðan 1994 svo það er kannski önnur afstaða hjá okkur en einhverjum sem keypti íbúð 2012 og reiknaði með 50% vexti á ári það sem eftir væri.“

Hann segir gististaði á landsbyggðinni hugsanlega minna skuldsetta en á höfuðborgarsvæðinu; uppbyggingin hafi ekki verið jafn hröð. „Nýjasta hótel á Akureyri sem var byggt sem hótel var 1928. Bankarnir hafa aldrei hleypt ferðaþjónustuaðilum úti á landi í einhverja svona gríðarlega skuldsetningu. Við erum að heyra sögur af því í bænum að þar séu hótelherbergi veðsett upp á kannski 20 milljónir hvert herbergi, sem eru rosalegar tölur. Það hefur aldrei verið í boði að hleypa hverri einingu í svona mikla skuldsetningu á okkar svæði. Það er ekkert hlaðið í einhvern skell út af því í rauninni, sem er bara, verður að segjast, bönkunum líka að þakka. Þeir hafa verið með vaðið fyrir neðan sig.“

Ekki hræddur við AirBnB
Daníel segir þá aukningu í heimagistingu sem deilihagkerfið hefur haft í för með sér vissulega hafa áhrif. Hann segist þó ekki hræddur við samkeppni og tekur auknu framboði vöru og þjónustu fyrir ferðamenn fagnandi, svo lengi sem allir borgi sína skatta og fari eftir settum reglum.

„Það er enginn vafi um það að mesta áskorun sem hótelbransinn hefur staðið frammi fyrir síðustu 30 árin eða lengur er AirBnB, bara á heimsvísu, og Ísland er engin undantekning þar á. Þetta er bara bullandi samkeppnisaðili sem hótel þurfa að svara með einhvers konar vöruframboði frekar en að fara fram á bönn.“

Hann bendir einnig á að innreið AirBnB á markaðinn hafi ýmsar jákvæðar hliðar. „Hvað hefðum við gert ef AirBnB væri ekki til staðar og þessi vöxtur hefði átt sér stað? Hefði þá þurft að byggja fleiri hótel hraðar?“

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: AirBnB Hótel Akureyri