Þekktustu sprota- og tæknifyrirtæki heims hafa gjarnan verið gagnrýnd fyrir taprekstur. Leigumiðlunin Airbnb, hefur þó brotið blað í sögu félagsins, en Airbnb skilaði hagnaði í fyrsta sinn frá stofnun 2008.

Bloomberg Technology fjallaði um tíðindin, en samkvæmt þeirra heimildum náði fyrirtækið núllpunkti við lok annars ársfjórðungs 2016. Heimildamenn Bloomberg fréttastofunnar segja að EBITDA félagsins muni að öllum líkindum haldast jákvæð árið 2017.

Airnbnb hefur þar með með aðgreint sig verulega frá öðrum þekktum einhyrningum (fyrirtæki sem metin eru á milljarða dollara eða meira) í bransanum.

Uber Tehnologies Inc. tapaði til að mynda 3 milljörðum dala í fyrra og hefur ekki getað hækkað verðskránna vegna samkeppni við fyrirtæki á borð við Lyft. Auk þess hefur fyrirtækið verið að fjárfesta gríðarlega í rannsóknum og þróun.

Airbnb hefur aftur á móti náð að halda hálfgerðri einokunarstöðu. Fyrirtækið tekur 6 til 12 prósenta þóknun fyrir hverja leigu og rukkar leigjendur einnig fyrir þjónustuna.

Í nóvember kynnti fyrirtækið einnig til leiks nýja þjónustu, sem á að tengja ferðamenn við heimamenn á mismunandi áfangastöðum.

Samkvæmt Bloomberg jukust tekjur Airbnb um 80% árið 2016, þrátt fyrir hertar reglugerðir í stórborgum víða um heiminn.

Samkvæmt heimildarmönnum fréttaveitunnar, situr fyrirtækið enn á stórum sjóðum frá síðustu hlutafjáraukningu og mun þeim fjármunum líklegast verða varið í að þróa flug-bókunar vefi og annarskonar þjónustu sem getur einfaldað upplifun ferðamanna um allan heim.