*

miðvikudagur, 3. mars 2021
Erlent 31. október 2020 16:01

Hlutabréf Airbnb verði skráð í Nasdaq

Útboð Airbnb verður það stærsta hjá Nasdaq síðan Facebook fór á markað. Partýhöld hafa verið til vandræða í aðdraganda útboðs.

Ritstjórn
Hlutabréf Airbnb verða tekin til viðskipta í kauphöllinn Nasdaq Global Select Market undir lok árs.
Aðsend mynd

Hlutabréf Airbnb verða skráð í kauphöll Nasdaq Global Select Market við fyrirhugað hlutafjárútboð, sem verður fyrir árslok. Skráningin þykir happafengur fyrir Nasdaq, sem hefur orðið undir í samkeppninni við New York Stock Exchange (NYSE) um nokkur nafntoguð félög á undanförnum árum, á borð við Uber og Snowflake.

Útboð Airbnb verður það stærsta í kauphöllinni frá hlutafjárútboði Facebook árið 2012. Mikil eftirvænting er fyrir útboðinu, sem verður meðal þeirra stærstu á annars fjörlegu ári á bandarískum hlutabréfamarkaði. Talið er að félagið ætli að sækja um 3 milljarða Bandaríkjadollara í útboðinu, sem samsvarar um 426 milljörðum króna, en upplýsingar um dagsetningu og fjárhæð útboðsins liggja ekki fyrir.

Partýhöld til vandræða í aðdraganda útboðs

Partýstimpillinn sem Airbnb hefur fengið á sig, hefur verið félaginu til aukinna vandræða í aðdraganda útboðsins, samkvæmt umfjöllun The New York Times. Svo virðist sem partýhöld í Airbnb íbúðum hafi aukist í heimsfaraldri kórónuveirunnar, þar sem fólk leitar leiða til að koma saman, í stað heimsókna á bari eða hótel. Í sumar þurfti lögreglan til að mynda að leysa upp 700 manna samkvæmi í Airbnb íbúð í New Jersey. Fjöldi kvartana vegna slíkra partýhalda hefur stóraukist undanfarna mánuði og hefur haft neikvæð áhrif á orðspor Airbnb.

Airbnb herti töluvert á reglum um partýhöld um það leyti sem fyrirtækið fór að huga að útboðinu. Í júlí var tekið fyrir að einstaklingar undir 25 ára aldri, með færri en þrjár jákvæðar umsagnir, gætu leigt íbúðir í nálægð við eigin heimili. Í ágúst, þegar félagið fór fram á skráningu, var sett 16 manna hámark á bókanir, partýhöld bönnuð og einstaklingar sem héldu samkvæmi lögsóttir.

Í síðasta mánuði hóf Airbnb prófanir á tækni sem kemur í veg fyrir grunsamlegar bókanir framkvæmdar með stuttum fyrirvara, auk þess sem fyrirtækið fjarlægði vinsælar partý-íbúðir af skrá. Í aðdraganda hrekkjavökunnar var tekið fyrir einnar nætur bókanir yfir hrekkjavökuna.

Stikkorð: Nasdaq Airbnb