Airbus hefur átt á brattann að sækja þegar horft er til íslenska markaðarins. Flugfloti dótturfélaga Icelandair Group er að mestu samansettur úr Boeingvélum, að mestu 757 auk nokkurra 737.

Innan Icelandair Group eru þó níu Airbus A320-200 vélar en þær eru hluti af flugflota Smart Lynx (áður Latcharter), sem er dótturfélag Icelandair Group í Lettlandi.*

Þá á Air Atlanta fjórar Airbus A300- 600 fragtvélar auk þess sem Avion á tvær Airbus-vélar.

Ljóst er að Icelandair þarf að endurnýja 757-200 vélar sínar á næstu 4-7 árum. Boeing 757 er ekki framleidd lengur og því ljóst að fara þarf í aðrar „týpur“ eins og gjarnan er talað um. Icelandair Group hefur þegar pantað fimm 787 Dreamliner-vélar frá Boeing en ólíklegt er að þær verði notaðar í flugleiðum félagsins.

Þá hefur Airbus 320 verið nefnd til sögunnar en líklegt má telja að félagið kjósi frekar Boeing 737 vélar enda nær viðskiptasaga Icelandair og Boeing áratugi aftur í tímann.

Airbus 320 og Boeing 737 eru að mörgu leyti áþekkar vélar. Þær koma í mismunandi línum (stærðum) og því gæti Icelandair valið sér mismunandi stórar vélar eftir þeim leggjum sem flognir eru.

Það er þó mjög ólíklegt að félagið kaupi bæði Airbus og Boeing enda kallar það á mun flóknari og dýrari vinnu, t.d. er kemur að viðhaldi flugvéla og þjálfun flugmanna.

*Í prentútgáfu Viðskiptablaðsins var sagt að Smart Lynx hefði verið í eigu Icelandair Group og gefið í skyn að svo væri ekki lengur. Þar er um mistök blaðamanns að ræða og beðist er velvirðingar á þeim. Smart Lynx er í meirihlutaeigu Icelandair Group en samstæðan hefur aftur á móti losað sig við stóran hlut í tékkneska félaginu Travel Service.

Þannig eru nokkrar Airbus vélar í eigu dótturfélaga Icelandair Group í gegnum Smart Lynx.. Fyrir áhugasama má geta þess að Travel Service notast að mestu leyti við Boeing 737 vélar.

_____________________________

Nánar er fjallað um upphaf og stöðu Airbus á 40 ára afmælinu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .