Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus afhenti í gær sjöþúsundustu vélina úr framleiðslu félagsins. Um var að ræða Airbus A321 vél til bandaríska flugvélagsins US Airways.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Airbus en vélin var afhent í Hamborg í Þýskalandi. Til gamans má geta þess að US Airways er stærsti notandi Airbus véla í heiminum.

Til merkis um framleiðsluaukningu Airbus má geta þess að aðeins eru liðin tvö ár frá því að félagið afhenti vél nr. 6.000.

Þúsundasta vélin úr framleiðslu Airbus var af gerðinni A340-300. Hún var afhent franska flugfélaginu Air France árið 1993, nítján árum eftir að fyrsta vél Airbus var afhent. Sú vél var einnig afhent Air France en hún var af gerðinni A300.

Árið 1999 var vél nr. 2000 afhent. Þremur árum síðar, eða árið 2002, var vél nr. 3.000 afhent og það tók önnur þrjú ár að afhenta þúsund vélar til viðbótar. Eftir árið 2005 tókst Airbus, eins og öðrum flugvélaframleiðendum reyndar, að hraða framleiðsluferlinu og í desember árið 2007 var vél nr. 5.000 afhent Qantas, en það var vél af gerðinni A330-200. Vél nr. 6.000 var síðan afhent rétt rúmum tveimur árum síðar, eða í janúar 2010 en þar var A380 vél sem afhent var Emirates.

US Airways er sem fyrr segir stærsti notandi Airbus véla í heiminum en flugfloti félagsins er að mestu uppbyggður af tæplega 230 vélum úr A320 línunni svokölluðu. Þannig rekur félagið 93 vélar af gerðinni A319, 72 vélar af gerðinni A320 og 63 vélar af gerðinni A321 en allar þessar vélar koma úr sömu framleiðslulínu. Til viðbótar þessu rekur félagið 16 vélar af gerðinni A330. Þá á félagið pantaðar 58 vélar úr A320 línunni, átta A330 vélar og loks 22 A350XWB vélar en framleiðsla á þeim vélum mun að öllum líkindum hefjast árið 2014.

Airbus A321 vél í eigu US Airways.
Airbus A321 vél í eigu US Airways.
© Gunnhildur Lind Photography (Gunnhildur Lind Photography)

Airbus A321 vél í litum US Airways. Af þeim 7.000 vélum sem Airbus hefur afhent í gegnum tíðina koma 4.900 vélar úr framleiðslulínu A320.