Flugvélaframleiðandinn Airbus tilkynnti um 52% aukningu í fjölda afhendinga á fyrstu sex mánuðum ársins en alls afhenti fyrirtækið 297 vélar til 67 viðskiptavina. Til samanburðar afhenti Airbus 196 vélar á fyrri helmingi síðasta árs og 389 vélar á sama tímabili árið 2019. Skynews greinir frá.

Airbus afhenti 77 vélar í júní, sem vegur um fjórðung afhendinga hjá félaginu í ár. Greiningaraðilar segja að Airbus sé nú líklegt til að markmiðum sínum um 566 afhentar vélar í ár en félagið hefur þegar náð 52% af markmiðinu. Ef horft er aftur til ársins 2000 þá hefur Airbus að meðaltali náð 46% af árlegum markmiðum sínum á fyrstu sex mánuðum hvers árs.

Félagið tilkynnti einnig um 165 pantanir á fyrri hluta ársins, þar af var pöntun frá United Airlines á 70 A321neo vélum . Nettó pantanir, þ.e. þegar búið er að taka með afpantanir með í reikninginn, voru 38 talsins.

Hlutabréfaverð Airbus hækkaði um 3,4% í gær eftir tilkynninguna. Gengi flugvélaframleiðandans lækkaði um tæplega 65% í byrjun heimsfaraldursins en eftir miklar hækkanir að undanförnu er gengið nú aðeins 18% lægra en í febrúar á síðasta ári.