Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus afhenti í fyrra 588 flugvélar til 89 viðskiptavina (þar af 17 nýrra viðskiptavina). Þetta var ellefta árið í röð þar sem framleiðslan eykst á milli ára hjá Airbus. Þá voru pantaðar 914 nýjar vélar sem er töluvert umfram það sem Airbus gerði ráð fyrir í upphafi ársins.

Þetta kom fram á blaðamannafundi sem haldinn var hjá Airbus í gærdag en þar fóru stjórnendur Airbus yfir árangur ársins og væntingar til þessa árs.

Til samanburðar voru pantaðar 921 vél frá bandaríska framleiðandanum Boeing, en þetta er í fyrsta sinn í tíu ár þar sem fjöldi pantana hjá Boeing er fleiri en hjá Airbus.

Heildarfjöldi pantanna hjá Airbus telur nú 4.468 vélar sem er met hjá félaginu en listaverð þessara véla er um 640 milljarðar Bandaríkjadala. Þessu til viðbótar hækkaði Airbus listaverð véla sinna um 3,6% frá og með síðustu áramótum.

Af 914 pöntunum síðasta árs voru langflestar þeirra, eða 478, í svokallaðar neo vélar framleiðandans, þ.e. úr A320neo fjölskyldunni. Með nýrri og endurbættari hreyflum og stærri vængjabörðum (sem Airbus kallar sharklet en Boeing kalla winglet) á A320neo vélin að spara um 15% af því eldsneyti sem hún notar núna. Þannig á véin að fljúga allt að 950 km. lengra en eldri útgáfan. Þá á vélin að menga minna auk þess sem hún á að vera hljóðlátari en eldri útgáfan af A320.

Þá má heyra á forsvarsmönnum Airbus að þeir eru bjartsýnir á framleiðslu A350XWB vélarinnar en ef fer sem horfir verður vélinni fyrstu reynsluflogið um mitt þetta ár. Á sama tíma er búið að kyrrsetja allar Boeing 787 Dreamliner vélar sem nú eru í umferð. Hvort væntingar til A350XWB standi á auðvitað eftir að koma í ljós en vélin er aðeins sex mánuðum á eftir áætlun á meðan 787 Dreamliner var rúmlega tveimur árum á eftir áætlun á sama stað í framleiðsluferlinu.