Tap EADS, móðurfélags Airbus, nam 860 milljónum króna á fyrsta ársfjórðungi, samanborið við 45 milljarða krónu hagnað á sama tímabili í fyrra, en tapið kemur í kjölfar mikils kostnaðar við að endurskipuleggja Airbus eininguna, sem lenti í miklum vandræðum með afhendingu á nýjum þotum á síðasta ári.

Tapið var þó mun minna en greiningaraðilar höfðu spáð, en þeir spáðu að meðaltali að tapið yrði 23,5 milljarðar króna. Bæði Eurocopter, sem framleiðir þyrlur og geimvísindadeild fyrirtækisins, EADS Astrium, skiluðu auknum hagnaði. En hergagnaframleiðslueining fyrirtækisins hélt áfram að hnigna.