*

þriðjudagur, 9. mars 2021
Erlent 16. janúar 2021 16:01

Airbus eykur forskot á Boeing

Airbus afhenti í heildina 566 vélar á síðasta ári en Boeing aðeins 157 vélar. Pantanabók Airbus var um 70% stærri í lok árs.

Ritstjórn
Airbus afhenti fleiri vélar en Boeing annað árið í röð.

Boeing hefur dregist enn frekar aftur úr Airbus við afhendingu flugvéla, en framleiðandinn afhenti aðeins 84 farþegavélar til flugfélaga í fyrra, sem er nærri því 90% fækkun frá því að best lét árið 2018.

Airbus afhenti í heildina 566 vélar á síðasta ári en Boeing aðeins 157 vélar. Þá voru 7.184 vélar í pöntunarbók Airbus í lok árs, eða um 70% fleiri en hjá Boeing sem lokaði árinu með 4.223 vélar í pöntunarbók.

Í frétt WSJ segir að dráttur á afhendingum véla hafi valdið lausafjárerfiðleikum hjá Boeing, enda greiða kaupendur meirihluta kaupverðs við afhendingu. Framleiðandinn hefur því neyðst til að auka skuldir og hagræða verulega í rekstri.

Boeing hefur reitt sig í auknum mæli á sölu fraktflugvéla og herþota til að komast í gegnum fjárhagsleg áföll vegna kyrrsetningar 737 MAX vélanna auk afhendingartafa á 787 Dreamliner vélum vegna framleiðsluvandamála sem enn sér ekki fyrir endan á.

Airbus býr sig hins vegar undir að auka framleiðslu á ný, nú þegar hyllir undir bjartari tíma í háloftunum. Félagið áformar að auka framleiðslu á A320 þotum á síðari hluta þessa árs.