Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus áætlar að auka framleiðslu á A330 vélinni. Þannig hyggst Airbus afhenda tíu vélar á mánuði á öðrum ársfjórðungi 2013.

Airbus afhendir í dag átta vélar af gerðinni A330 á mánuði en hyggst auka framleiðsluna í níu vélar snemma á næsta ári.

„Við ætlum að auka framleiðsluna á A330 fjölskyldunni vegna mikillar eftirspurnar á markaði,“ segir Tom Williams, aðst.forstjóri Airbus í tilkynningu.

Þegar rætt er um A330 fjölskylduna er átt við vélar af gerðinni A330 og A340. Vélarnar eru framleiddar í sömu verksmiðju og A340 er í raun stærri og lengri útgáfa af A330. Þannig er A340 fjögurra hreyfla á meðan A330 er tveggja hreyfla. Vélarnar eru bæði notaðar til farþegaflugs en þá þykja vélarnar einnig hentugar til fraktflugs. Til gamans má geta þess að rúmlega 30 einkaflugvélar af gerðinni A330 og A340 eru í umferð í dag.

A330 og A340 eru meðal vinsælustu breiðþota heims. Um 750 vélar hafa þegar verið afhentar og um 1.100 vélar eru nú í pöntun, ýmist sem farþegavélar, fraktvélar og í nokkrum tilvikum sem herflutningavélar. Til dæmis má nefna að ástralski flugherinn fær tvær slíkar vélar afhentar innan skamms.