Á föstudaginn var tilkynnt um að fjögur kínversk flugfélög hefðu lagt inn pöntun fyrir 292 Airbus þotur fyrir 37 milljarða dala. Um er að ræða einn stærsta samning í sögu evrópska flugvélaframleiðandans.

China Eastern Airlines festi kaup á 100 A320neo vélum, Air China kaupir 64 vélar og Shenzen Airlines kaupir 32 af sömu gerð. Þá hafði China Southern Airlines áður tilkynnt að félgið myndi kaupa 96 A320neo vélar ásamt því að taka fleiri á leigu.

Tilkynningin markar fyrstu stóru pöntunina í kínverska fluggeiranum í rúm þrjú ár. Samningurinn gefur merki um að Airbus hafi náð yfirhöndinni í baráttunni við Boeing á kínverska markaðnum þökk sé samsetningarstöðvar evrópska flugrisans í Kína.

Boeing kennir viðskiptastríðinu um

Talsmaður bandaríska flugvélaframleiðanda Boeing lýsti yfir óánægju með samninginn og sagði slæmt viðskiptasamband á milli Bandaríkjanna og Kína hafa spilað stóran þátt í valinu á Airbus.

„Það eru vonbrigði að landfræðipólítískur ágreiningur skuli áfram hefta útflutning á bandarískum flugvélum,“ hefur Bloomberg eftir honum. Hann hélt því fram að sala til Kína hafi sögulega haldið uppi tugum þúsunda störfum í Bandaríkjunum.

Í kjölfar ummælanna birtist leiðari í kínverska ríkisfjölmiðlinum Global Times þar sem pöntuninni var lýst sem „eðlilegum viðskiptum“ og að fluggeirinn væri lykilssvið í efnahagslegu samstarfi og viðskiptasambandi Kína og Evrópu. Jafnframt hafi hjálpað Airbus að hafa samsetningarstöð (e. assembly plant) í Kína og að evran væri veik um þessar mundir.

„Það er eðlilegt að Bandaríkin séu súr yfir að missa viðskiptin yfir til Airbus,“ segir í leiðaranum. „Sé horft til frammistöðu þessara tveggja fyrirtækja á á heimsmarkaðnum frá árinu 2019 þá hefur Airbus verið langt á undan Boeing í samkeppninni um pantanir á farþegaþotum og markaðshlutdeild.“