*

föstudagur, 21. janúar 2022
Erlent 11. janúar 2022 10:45

Airbus flýgur hærra en Boeing

Airbus er stærsti flugvélaframleiðandinn, þriðja árið í röð, en flugvélaframleiðandinn stefnir á að auka framleiðslu á A320 vélunum.

Ritstjórn
epa

Airbus er stærsti flugvélaframleiðandi þriðja árið í röð. Þetta kemur fram í grein Financial Times. 

Airbus hafði sett sér markmið að afhenda 600 flugvélar á árinu, en flugvélaframleiðandinn afhenti 611 vélar í fyrra, 8% aukning frá árinu 2020. A320 vélin var gríðarlega vinsæl hjá Airbus, en meira en tveir þriðju afhendinga voru slíkar vélar. Til samanburðar hafði Boeing afhent 302 vélar í heildina undir lok nóvembermánaðar í fyrra.

Airbus fékk í heildina 771 pantanir í farþegaþotur á árinu 2021. Boeing hafði fengið 829 pantanir í lok nóvember í fyrra og hefur því tekið á móti fleiri pöntunum á árinu.

Í frétt FT segir Guillaume Faury, forstjóri Airbus, að félagið stefni á að auka framleiðslu á A320 vélum. Stefnan sé sett á að framleiða 65 slíkar vélar í hverjum mánuði fyrir sumarið 2023. 

Airbus tók fyrst fram úr Boeing í flugvélaframleiðslu árið 2019 þegar Boeing 737 Max flugvélarnar voru kyrrsettar. Síðan þá hefur Airbus haldið sæti sínu sem stærsti flugvélaframleiðandi heims.

Stikkorð: Boeing Airbus