Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur frestað framleiðslu á nýjustu farþegaflugvél sinni, A350XWB, um sex mánuði. Þá mun Airbus verja um 200 milljón evra aukalega í þróun vélarinnar sem er ætlað að keppa við nýjustu vél Boeing, 787 Dreamliner, sem er nýkominn í almenna notkun – þremur árum á eftir áætlun.

Það má þó vera ljóst að Airbus menn ætla sér að læra af mistökum Boeing. Líkt og 787 Dreamliner er A350 byggð að miklu leyti til úr koltrefjaefnum og á þannig að vera léttari og sparneytnari en aðrar flugvélar. Nú er áætlað að afhenta fyrstu A350 vélina til notkunar í byrjun árs 2014 í stað síðla árs 2103. Framleiðsla vélarinn er nú þegar einu ári á eftir áætlun.

Gert er ráð fyrir þremur línum af A350 vélinni. Þær eru A350-800 sem mun sitja um 270 farþega, A359-900 sem mun sitja um 314 farþega og A350-1000 sem mun sitja allt að 350 farþega.

Þeir sem vel þekkja til í flugheiminum hafa búist við og fjallað um að von væri á tilkynningu frá Airbus þess efnis að framleiðslu A350 yrði frestað. Það hefur haft lítillega áhrif á gengi bréfa EADS, móðurfélags Airbus.

Rekstrarhagnaður EADS lækkaði um 15% á þriðja ársfjórðungi þessa árs og nam 322 milljónum evra. Tekjur félagsins námu 10,75 milljörðum evra og lækkuðu um 4% á milli ára samkvæmt uppgjörstilkynningu félagsins sem birt var í gær.

Sala Airbus flugvéla hefur gengið vel síðustu 12 mánuði en velgengnin liggur fyrst og fremst í auknum pöntunum á A320 vélinni, vinsælustu og mest seldu vél Airbus. Þá býst Airbus við því að hagnaður félagsins á árinu nemi 1,45 milljarði evra, sem er nokkuð umfram væntingar greiningaraðila.