Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur ákveðið að hætta framleiðslu á A380 þotunni, stærstu farþegaþotu heims, árið 2021. Financial Times greinir frá þessu og skv. blaðinu er ákvörðunin tekin eftir að stærsti kaupandi þotunnar, flugfélagið Emirates, dróg verulega úr pöntunum á þotunni. Tom Enders, framkvæmdastjóri Airbus, sagði í tilkynningu að ákvörðunin hafi verið: „Sársaukafull fyrir bæði okkur sem félag og A380-samfélagið sem spannar allan heiminn.“

Flugfélagið Emirates, sem gerir út frá Dubai á Arabíuskaga, ákvað að fækka A380 þotum í áætluðum flugþota sínum um 39 þotur, úr 162 niður í 123, en félagið á eftir að fá fjórtán A380 þotur afhentar á næstu tveimur árum. Þessi samdráttur þýddi að frekari framleiðsla var ekki lengur hagkvæm en vélin er bæði dýr og flókin í framleiðslu enda eitt metnaðarfyllsta verkefni flugvélaiðnarins síðustu ára.

Það dróg hins vegar úr högginu fyrir Airbus að Emirates jók við pöntunum á A330neo og A350 um 70 vélar. Sheikh Ahmed bin Saeed Al Maktoum, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Emirates, sagði það vera vonbrigði að þurfa hætta við kaupin því félagið hafi verið mikill stuðningsaðili A380 frá upphafi.

Financial Time segir að um 3.500 starfsmenn eigi í hættu á að missa vinnuna en forsvarsmenn Airbus segi að viðræður við verkalýðsfélög væru í burðarliðnum.