Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur skrifað undir bráðabirgðasamning um byggingu verksmiðju í Tianjin, í austurhluta Kína. Það mun vera fyrsta verksmiðja Airbus utan Evrópu, en í henni verða framleiddar A320 þotur, sem hafa notið mikillar velgengni, segir í frétt Financial Times.

Airbus hefur einnig fengið pöntun sem hljóðar upp á 150 A320 þotur, en það er stærsta einstaka pöntun Airbus fram að þessu. Kína hefur einnig lagt inn pöntun á tuttugu A350 þotum, sem eru enn í þróun og eru ætlaðar til langflugs.

Stendur til að framleiðsla geti hafist í Kína árið 2009 og að hægt verði að framleiða fjórar þotur á mánuði árið 2011. Louis Gallois, forstjóri Airbus og EADS, sem er móðurfélag Airbus, segir að íhlutir verði enn framleiddir í Evrópu, en þoturnar verði settar saman í Kína. Kínverska samsteypan sem sér um að koma verksmiðjunni á laggirnar er leidd af Tianjin Free Trade Zone (TJFTZ) og inniheldur China Aviation Industry Corporation I og II.

Skrifað var undir samninginn á meðan heimsókn Jacques Chirac Frakklandsforseta til Kína stóð, en stjórn EADS og kínversk yfirvöld eiga enn eftir að samþykkja samninginn. Á síðasta ári hóf Airbus rannsóknir sem miðuðu að aukningu starfsemi fyrirtækisins í Kína og að breiða framleiðslu fyrirtækisins út fyrir höfuðstöðvar sínar í Evrópu, en flugsamgönguiðnaður í Kína er nú í miklum vexti. Sex kínverskir aðilar framleiða nú þegar fyrir Airbus, meðal annars íhluti í vængi, neyðardyr og verkfæri til viðhalds flugvélanna. Airbus opnaði verkfræðimiðstöð í Peking í júlí á síðasta ári. Tækni- og þjónustumiðstöðvar Airbus eru nú í yfir tuttugu borgum í Kína.

Flugsamgönguyfirvöld í Kína, China Aviation Supplies Import and Export Group Corporation (CASGC), skrifuðu undir pöntunina, en enn á eftir að úthluta flugvélunum til einstakra flugfélaga. Airbus hóf innreið sína á Kínamarkað árið 1985 og á nú samninga við tíu flugfélög þar í landi og eru nú um 300 Airbus þotur þar í umferð, en árið 1995 voru þær aðeins 29.

Airbus þykir sýnt mikið traust með undirritun viljayfirlýsingar um pöntun á tuttugu A350XWB þotunum, en framleiðsla þeirra hefur ekki enn farið af stað og bíður samþykkis stjórnar EADS. A350 þoturnar eru taldar nauðsynlegar ef Airbus á að geta staðist samkeppni við sambærilegar þotur Boeing, 787 Dreamliner og 777. 787 þotan mun fara í sitt fyrsta tilraunaflug á næsta ári og verður afhent til flugfélaga í Japan árið 2008.

Airbus á enn í vandræðum með framleiðslu A380 þotum sínum og er afhending á þeim tveimur árum á eftir áætlun. Airbus á því eftir að sýna EADS fram á að fyrirtækið hafi fjárhagslega getu til að fara út í A350 verkefnið, en fyrsta slíka þotan kæmi ekki á markað fyrr en 2012-14, að minnsta kosti fjórum árum á eftir Boeing 787 þotunni. Airbus hefur nýverið samið við nýtt lággjaldaflugfélag í Bandaríkjunum um sölu á 65 A319 þotum til þess.