Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus hefur undirritað samkomulag um kaup á bandaríska tæknifyrirtækinu Metron Aviation. Kaupverðið er ekki gefið upp kaupin bíða nú samþykkis samkeppnisyfirvalda beggja megin Atlantshafsins og verða að öllum líkindum frágengin fyrir áramót.

Í tilkynningu frá Airbus kemur fram að kaupin séu liður í aukinni tækniþróun Airbus er snýr að flugumferðarstjórn og sjálfsstýringu flugvéla. Þá segir Airbus að með aukinni tækni í flugumferðarstjórn verði vélar félagsins til lengri tíma sparneytnari og þar með umhverfisvænni auk þess sem öryggi eykst til muna.

Airbus stofnaði fyrr á þessu ári dótturfélag, Airbus ProSky, sem er ætlað að vinna með flugmálayfirvöldum bæði í Bandaríkjunum og Evrópu að nýju og betra flugumferðarstjórnunarkerfi. Í stuttu máli áætlar Airbus að nýta sér GPS tæknina í auknum mæli í blindflugi þannig að öryggi vélanna verði mun meira en áður þó svo að flugleiðir kunni að verða styttri og hagnýtnari.

Tæknin sem þessu fylgir er flókin og erfitt er að setja hana í orð. Þó er hægt að nefna dæmi um prófanir sem Airbus hefur gert með nýjan stýringabúnað flugvéla. Þannig hefur búnaður, sem þróaður er af Airbus, verið notaður í sjónflugi við fjallshlíðar Nýja Sjálands þar sem aðflugsleiðir geta oft verið flóknar. Til að gæta fyllsta öryggis er aðflugsleiðir í blindflugi nokkuð langar þar sem mikið er um fjöll í kringum helstu flugvelli landsins en Airbus hefur gert prófanir á búnaði sínum sem gerir vélum kleift að fljúga mun neðar og nær fjallshlíðunum en áður hefur verið gert, þó með fyllst öryggi að leiðarljósi. Prófanirnar voru gerðar í sjónflugi og notast var við GPS punkta en ætlunin er að til langs tíma nýtist sama tækni í blindflugi.