Evrópski flugvéla- og vopnaframleiðandinn EADS, sem meðal annars er eigandi Airbus, hagnaðist um 1,57 milljarða evra á síðasta ári samanborið við tap upp á 446 milljóna evra árið 2007.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu en þar er jafnframt greint frá því að búist er við minni hagnaðir í ár.

Stærsti hluti hagnaðarins kemur til vegna góðs gengis Airbus sem afhenti 483 flugvélar á árinu.

Framleiðsla á A400M herþotunum hefur hins vegar ekki gengið sem skyldi en nokkur töf verður á afhendingu þeirra samkvæmt tilkynningu félagsins en fyrsta afhending var áætluð á þessu ári.

Mestur var hagnaðurinn á fjórða ársfjórðungi síðasta árs en þá hagnaðist félagið um 490 milljónir evra sem var 89% aukning frá fyrra ári.

EADS mun greiða arð að andvirði 0,2 evra á hvern hlut sem er aukning frá því í fyrra þegar félagið greiddi 0,12 evrur á hvern hlut.