Evrópski flugvélaframleiðandinn Airbus náði markmiði sínu með því að afhenda 12 vélar af tveggja hæða breiðþotunni A380 á árinu.

Samkvæmt tilkynningu frá félaginu var síðasta A380 vélin afhent Emirates airline í síðustu viku en félagið á þar með fjórar slíkar vélar.

Í desember árið 2000 ákvað Airbus að verja allt að 8,8 milljörðum Bandaríkjadala í verkefnið sem þá var kallað A3XX. Vélin hlaut síðar nafnið A380 en átta er mikil happatala í Asíu þar sem vélin var fyrst og fremst markaðssett. Þegar fyrsta vélin var afhent í fyrra hafði A3XX verkefnið kostað um 11 milljarða dali.

Í upphafi framleiðslunnar var gert ráð fyrir að búið yrði að afhenda 120 vélar fyrir árslok 2009. Hins vegar urðu um tveggja ára tafir á upprunalegri afhendingu A380 og var það helst um að kenna rafmagnskerfi vélarinnar sem í sífellu stóðst ekki öryggisprófanir. Nú er áætlað að búið verði að afhenda 50 vélar fyrir árslok 2009 þó Airbus geti framleitt allt að fjórar slíkar á mánuði. Þá hafa 202 A380-800 vélar verið pantaðar.

Eins fyrr segir tafðist afhending á vélinni um tvö ár. Það varð til þess að einhver flugvélög afpöntuðu vélina og sneru sér ýmist að A340 línunni (sem fram til þessa var stærsta vél Airbus) eða færðu viðskipti sín til Boeing og pöntuðu 747-8 (sem er stærri útgáfa af 747-400).