Airbus efnir til alþjóðlegrar keppni undir nafninu „Komdu hugmyndum þínum á flug“.

Í keppninni er teymum nemenda um allan heim boðið að koma með nýjar hugmyndir til að móta framtíð flugvélaiðnaðarins og aðstoða við að efla vistvirkni hans.

Markmiðið er að skapa meiri verðmæti með minni áhrifum á umhverfið.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Airbus.

Keppnin er opin háskólanemum hvar sem er í heiminum sem eru í meistara- eða doktorsnámi innan hvaða greinar sem er, frá verkfræði til markaðsfræði, viðskiptum til raunvísinda og heimspeki til hönnunar.

„Uppástungurnar mega snúast um ólík viðfangsefni, þar á meðal ný efni, framleiðsluaðferðir, flughæfni, framleiðslu og skipulagslega og verklega framkvæmd,“ segir í tilkynningunni.

Verðlaunin eru 30.000 evrur og renna þau til þess nemendahóps sem kemur með hugmynd sem er líklegust til að skila mestum árangri.

Liðin munu fara í gegnum margs konar ögrandi keppnislotur sem lýkur með keppni í beinni útsendingu á Le Bourget flugsýningunni í París í júní 2009.

„Komdu hugmyndum þínum á flug“ keppnin gefur nemendum tækifæri til að vinna með Airbus. Saman getum við deilt ferskum og frumlegum hugmyndum og mótað þannig framtíð flugvélaiðnaðarins,“ segir Tom Enders, forstjóri Airbus í tilkynningunni.