Evrópsku flugvélasmiðirnir hjá Airbus sendu frá sér 626 vélar í fyrra og tók við pöntunum upp á 1.619 í viðbót, samkvæmt sölutölum Airbus sem birtar voru í dag. Þær hafa aldrei verið fleiri. Engu að síður vantar 22 vélar upp á að fyrirtækið komist með tærnar þar sem Boeing er með hælana.

AP-fréttastofan segir að miðað við stöðu pantana ætli Airbus sér stóra hluti á nýju ári enda séu pantanir nú tvöfalt fleiri en fyrir ári. Bandarísk félög pöntuðu flestar vélarnar auk þess sem flugfélög í Asíu eiga stóran skerf af pöntunum á nýjum vélum.