*

þriðjudagur, 2. júní 2020
Erlent 13. desember 2019 12:34

Qantas velur Airbus fyrir nýja flugleið

Ákvörðunin er sögð áfall fyrir Boeing, en Airbus vélarnar verða notaðar í flug milli Sidney og London.

Ritstjórn
Alan Joyce, framkvæmdastjóri Qantas.
epa

Ástralska flugfélagið Qantas hefur ákveðið að notast við Airbus flugvélar í fyrirhuguðum flugum á milli Sidney og London. Umrætt flug verður lengsta beina farþegaflug sem völ verður á. BBC greinir frá. 

Hyggst Qantas festa kaup á Airbus A350-1000 þotum sem notaðar verða til flugs á þessum legg. Er þetta sagt mikið áfall fyrir helsta keppinaut Airbus, Boeing. Líkt og þekkt er orðið hefur Boeing átt undir högg að sækja, í kjölfar kyrrsetningar Boeing 737-Max flugvélanna um allan heim. 

Qantas hefur þó frestað því að taka lokaákvörðun um hvort að af þessari beinu flugleið milli London og Sidney verði, auk fleiri langra flugleiða, þar til í mars á næsta ári.

Fyrir tveimur árum skoraði Qantas á fyrrnefnda flugvélaframleiðendur að hanna farþegaflugvél sem gæti hentað í þessi löngu flug og drifið um 10,500 mílur, og þannig verið í loftinu í allt að 20 klukkustundir í einu. Báðir aðilar brugðust við og hönnuðu vélar sem uppfylltu þessar kröfur, en nú er ljóst að Airbus hafði betur í þessari baráttu.

Stikkorð: Qantas Airbus