Áhugafólk um skotvopn hamstrar rússneska riffla undir merkjum Kalashnikov eða AK-47 þessa dagana. Ástæðan er innflutningsbann á vopnin frá Rússlandi. Bannið er liður í viðskiptaþvingunum ríkisstjórnar Bandaríkjanna gegn Rússum vegna málefna Úkraínu.

Fram kemur í bandaríska dagblaðinu The Washington Post að ekki hafi liðið þrír dagar frá því bannið var sett á og tekið var að ganga á birgðir af AK-47 rifflum í Bandaríkjunum. Svo langt hafa sumir gengið í ótta sínum við að rifflarnir muni heyra sögunni til vestanhafs að þeir hafa gengið úr búðum með átta til tíu riffla. Óttinn er ekki ókeypis því einn AK-47 kostar þúsund dollara eða sem nemur rétt rúmum 116 þúsund krónum. Tíu rifflar kosta því rúma milljón íslenskar.