Sérstakur saksóknari gaf fyrir síðustu helgi út ákæru á hendur nokkrum fyrrverandi stjórnendum gamla Landsbankans. Málið tengist markaðsmisnotkun með hlutabréf bankans í aðdraganda þess að bankinn fór í þrot. Málin eru þrjú sem hafa verið sameinuð í eitt. Þetta er fyrsta ákæran í máli tengdu falli Landsbankans haustið 2008. Ekki liggur fyrir hverjir eru ákærðir í málinu.

Fréttablaðið segir í dag að ákærurnar hafi ekki verið birtar neinum sakborninga í gær.

Eins og vb.is greindi frá í gær hefur embætti sérstaks saksóknara ákært fyrrverandi stjórnendur Kaupþings vegna markaðsmisnotkunar með hlutabréf bankans áður en hann fór í þrot um svipað leyti og Landsbankinn. Æðstu stjórnendur bankans á sínum tíma eru ákærðir í málinu, þar á meðal Sigurður Einarsson, fyrrverandi stjórnarformaður Kaupþings, Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings og sjö aðrir.

Málin varða að einhverju leyti kaup viðvildarviðskiptavina bankanna á hlutabréfum bankanna. Bankarnir lánuðu þeim fyrir kaupunum og voru hlutabréfin tryggingar fyrir greiðslu lánanna. Á meðal helstu mála af þessum toga sem m.a. er fjallað um í Rannsóknarskýrslu Alþingis eru viðskipti bankans við félög á borð við Holt Investment Group, félags í eigu Skúla Þorvaldssonar, breska fjárfestisins Kevin Stanford og fleiri sem keyptu hlutabréf í Kaupþingi fyrir tugi milljarða króna með lánum frá bankanum. Nokkur félög keyptu jafnframt hlutabréf Landsbankans fyrir hrun.