Andri Árnason hrl., verjandi Geirs H. Haarde, fyrrverandi forsætisráðherra, telur að ákæruskjal saksóknara Alþingis, Sigríðar Friðjónsdóttur, uppfylli tæpast lagakröfur um ákæruskjal samkvæmt landsdómslögunum. Vísar hann þar til þess að kveðið er á um að ákæruskjal í landsdómsmálum eigi að uppfylla kröfur sem gerðar eru til ákæruskjala í sakamálum almennt. Í sakamálalögum er sérstaklega miðað við að ef ákæruefni er flókið eða umfangsmikið skuli röksemdir fyrir málsókn koma fram í ákæru.

„Þetta mál er einstakt og vart hægt að segja annað en að ákæruefnið sé flókið og umfangsmikið, og sérstakt, líklega fordæmalaust mál,“ segir Andri.

Brot í aðdraganda hruns

Málið er höfðað á hendur ráðherra fyrir meint brot í embætti sem framin hafi verið af ásetningi eða stórkostlegu hirðuleysi, frá febrúar 2008 til byrjunar október 2009. „Þarna er slegið fram óljósum viðmiðunum í nánast öllum ákæruliðum, sem nauðsynlegt hefði verið að skýra nánar. Til dæmi sé ákært fyrir að gera ekki eitthvað, sem síðan er á engan hátt skýrt hvað það hefði átt að vera. Þar fyrir utan er það með öllu óljóst og ekkert skýrt hvernig ýmis atriði tengjast embætti forsætirráðherra eða hvernig þau geta verið á valdi hans, en þetta varðar auðvitað líka efnisatriði málsins.“

Í ákæruskjali er ákært fyrir að hafa ekki gert ráðstafanir „með virkri aðkomu ríkisvaldsins“ varðandi flutning Icesave-reikninga Landsbankans. Andri segir að ýmislegt hafi komið í ljós eftir ákvörðun Alþingis um málshöfðunina. „Ég held að reynslan hafi sýnt og sannað að aðgerðir og ráðstafanir sem gripið var til hafi verið hárréttar og hugmyndir um að ríkið hefði t.d. ábyrgst flutning innstæðna hefðu verið óheillavænlegar. Forsendur ákærunnar eru því í mörgum tilvikum einnig rangar."

Yfir 40 vitni

Vitnalisti hefur verið lagður fram af hálfu saksóknara. Á honum eru 43 nöfn. Þar á meðal eru bankastjórar allra bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans auk embættismanna, ráðherra, fyrrverandi seðlabankastjóra og fleiri. Málið verður þingfest 7. júní og fer öll málsmeðferðin fram í Þjóðmenningarhúsinu.