Kaupþing var ekki og gat ekki verið viðskiptavaki í eigin hlutabréfum, að því er segir í ákæru sérstaks saksóknara á hendur fyrrverandi stjórnendum og starfsmönnum Kaupþings vegna meintrar markaðsmisnotkunar. Þar er sérstaklega farið yfir það hvort bankinn geti hafa verið viðskiptavaki í eigin bréfum í Kauphöllinni.

Í fyrsta kafla ákærunnar er farið yfir þessa meintu markaðsmisnotkun og hún sögð hafa m.a. falist í því að deild eigin viðskipta Kaupþings hafi sett inn mun fleiri og stærri kauptilboð í bréf bankans á markaði en sölutilboð. Nettókaup eigin viðskipta í bréfum Kaupþings námu tugum milljarða að markaðsvirði frá nóvember 2007 til falls bankans í október ári síðar.

Í ákærunni segir að Kaupþing hafi ekki með réttu getað verið viðskiptavaki í eigin bréfum og er vísað til orðalags laga um verðbréfaviðskipti því til stuðnings. Þá segir í ákærunni að háttsemi eigin viðskipta bankans hafi heldur engin einkenni viðskiptavaktar.

„Viðskiptavakar leitast við að mynda tvær hliðar á markaðnum en EVK [eigin viðskipti Kaupþings] settu fram margfalt fleiri kauptilboð en sölutilboð í hlutabréf í Kaupþingi. Viðskiptavaki myndi hins vegar aðlaga tilboð sín þar til jafnvægi hefði náðst og það magn bréfa sem hann kaupir ætti að vera nokkurn veginn til jafns við það magn sem hann selur,“ segir í ákærunni.

Þá segir í ákærunni að líta verði svo á að útgefanda hlutabréfa sé með öllu óheimilt að mynda seljanleika og dýpt í viðskiptum með eigin hlutabréf með öðrum hætti en með samningi við fjármálafyrirtæki um viðskiptavakt að uppfylltum ströngum skilyrðum laga um verðbréfaviðskipti. „Kaupþing var ekki viðskiptavaki í eigin hlutabréfum og sú háttsemi ákærðu, að tryggja stöðuga eftirspurn eftir hlutabréfunum og þar með seljanleika þeirra, hafði þannig ekki lögmætan tilgang.“