Kona, sem starfaði í bakvinnslu MP banka, hefur verið ákærð fyrir 60 milljóna króna fjárdrátt. Fréttastofa RÚV greinir frá þessu.

Fyrst var greint frá málinu þann 17. mars síðastliðinn þegar MP banki sendi frá sér tilkynningu þess efnis að starfsmanni hefði verið vikið frá störfum vegna gruns um misferli í starfi. Var greint frá því fyrst um sinn að fjárdrátturinn næmi nokkrum milljónum króna , en nú virðist hins vegar sem fjárhæðin sé töluvert hærri.

Í frétt RÚV kemur fram að konunni sé gefið að sök að hafa millifært 110 sinnum á rúmum tveimur árum töluverðar fjárhæðir af sex reikningum bankans yfir á fjóra bankareikninga móður sinnar. Segir að hún hafi haft aðgang að reikningum móður sinnar og notað fjármunina í eigin þágu.

Fjárhæðirnar, sem konunni er gefið að sök að hafa millifært án heimildar, eru allt frá 135 þúsund krónum til tæplega þriggja milljóna króna.