Hið svokallaða Aserta-mál var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness í dag. Sérstakur saksóknari höfðar málið gegn þeim Karli Löve Jóhannessyni, Gísla Reynissyni, Markúsi Mána Michaelssyni og Ólafi Sigmundssyni. Sakborningar mættu allir í dómssal nema Markús Máni.

Þeir eru ákærðir fyrir að hafa haft milligöngu um gjaldeyrisviðskipti án leyfis og fyrir að hafa staðið í löglegum viðskiptum með gjaldeyri fyrir rúma 14 milljarða króna árið 2009, þ.e. eftir að gjaldeyrishöft voru sett á.

Viðskiptavinir þeirra eru sagðir hafa verið 84 talsins og þeir fengið íslenskar krónur á hagstæðari kjörum en í boði var hjá fjármálastofnunum hér á landi. Krónurnar fluttu fjórmenningarnir til Íslands i gegnum félagið Aserta í Svíþjóð.

Embætti sérstaks saksóknara gaf út ákæru á hendur mönnunum fjórum 22. mars síðastliðinn. Málið hefur verið í rannsókn hjá embætti sérstaks saksóknara í þrjú ár.

Heildartekjur fjórmenninganna nam samkvæmt útreikningum saksóknara annaðhvort 656 milljónum króna eða 693 milljónum. Hagnaður umbjóðenda þeirra var hins vegar miklum mun meiri, en ætla má að hann hafi numið um þremur milljörðum króna.