Fjórmenningarnir sem ákærðir eru í Aurum málinu svokallaða lýstu allir yfir sakleysi við þingfestingu málsins við Héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. Hinir ákærðu eru Lárus Welding, fv. forstjóri Glitnis, Jón Ásgeir Jóhannesson, fv. forstjóri og aðaleigandi Baugs Group, og þeir Magnús Arnar Arngrímsson og Bjarni Jóhannesson, fv. starfsmenn Glitnis.

Aurum-málið snýst um lánveitingar Glitnis til félagsins FS38 vegna kaupa félagsins á skartgripakeðjunni Aurum Holding í London af Pálma Haraldssyni, en FS38 greiddi sex milljarða króna fyrir félagið í maí 2008. Slitastjórn Glitnis telur að greitt hafi verið margfalt fyrir verslunarkeðjuna og hefur máli sínu til stuðnings mat matsmanna. Auk þess fengu þeir Jón Ásgeir og Pálmi sitt hvorn milljarðinn út úr viðskiptunum í eigin vasa.

Verjendur ákærðu lögðu fram sameiginlega bókun þar sem þeir mótmæla framlagningu gagna sem sérstakur saksóknari lagði fram í málinu. Óttar Pálsson, verjandi Lárusar, sagði gögnin umfangsmikil, einar sex þúsund blaðsíður, og sagði verjendur þurfa lengri tíma til að fara  yfir þau.

Guðjón St. Marteinsson, dómarinn í málinu, sagði að búið væri að leggja skjölin fram og sagðist gefa sér að um grundvallarskjöl í málinu sé að ræða. Málinu var frestað um rúma viku.