Fyrr­ver­andi eig­andi net­versl­un­ar­inn­ar buy.is og bestbuy.is hef­ur verið ákærður ásamt eig­in­konu sinni af embætti héraðssaksókn­ara vegna 102 millj­óna skattsvika. Þetta kemur fram á mbl.is .

Samkvæmt fréttinni er hann bæði sakaður um að hafa skotið undan, með því að villa fyrir í virðisaukaskattsgreiðslum hjá tveimur fyrirtækjum sem hann var í forsvari fyrir, en auk þess gaf hann ekki upp 41,2 milljóna króna tekjur sínar sem hann hafði á árunum 2011 til 2013. Með þessu sveik hann um 16,5 milljónir í tekjuskatt.

Mann­in­um er einnig gert að hafa skilað röng­um virðisaukaskattsskýrslum upp á sam­tals 83,6 millj­ón­ir á ár­un­um 2012-2013 fyr­ir fé­lagið Gegn ein­ok­un ehf. Sam­tals er því um að ræða skatta­laga­brot upp á rúm­lega 102 millj­ón­ir króna.

Sakaður um kennitöluflakk

Málið kom fyrst upp í um­fjöll­un fjöl­miðla árið 2012 þegar DV fjallaði um meint brot manns­ins í tengsl­um við sölu á ým­is­kon­ar tölvu­búnaði, meðal ann­ars Apple-vör­um. Umboðsaðilar Apple á Íslandi höfðu þá tjáð sig um viðskiptahætti mannsins og sökuðu hann um kennitöluflakk. Maðurinn hefur þó verið tengdur við ýmiskonar umdeilda viðskiptahætti.

Ákærð fyrir peningaþvætti

Samkvæmt ákærunni á hann einnig að hafa notað 21,3 millj­ón­ir af meint­um und­an­skot­um fyr­ir­tæk­is­ins til að greiða kred­itkortareikn­inga sína og eig­in­konu sinn­ar sem einnig er ákærð í mál­inu. Þá fóru 11,5 millj­ón­ir inn á reikn­ing kon­unn­ar og var þeim ráðstafað í fast­eigna­kaup. Eru þau bæði ákærð fyr­ir pen­ingaþvætti vegna þessa hluta máls­ins.

Farið er fram á 5,1 millj­ón á reikn­ing kon­unn­ar verði gerð upp­tæk sem og mik­ill fjöldi raf- og tölvu­tækja. Meðal ann­ars er um að ræða 42 stykki af Sam­sung-farsím­um, hundruð minn­islykla, far­tölv­ur og fjöl­marga aðra farsíma og raf­tæki ým­is­kon­ar.