Engar eignir fundust upp í kröfur upp á tæpa 1,2 milljarða króna í þrotabú félagsins Margin ehf. Félagið fékk tæpar 800 milljónir króna lánaðar hjá Glitni til að kaupa hlutabréf í bankanum árið 2008. Eigandi félagsins er Magnús Arnar Arngrímsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis. Hann er einn fjórmenninganna sem ákærðir eru fyrir hlutdeild sína í Aurum-málinu svokallaða þegar Glitnir lánaði félagi sex milljarða króna til kaupa á hlut Fons, félags Pálma Haraldssonar, í bresku skartgripakeðjunni Aurum Holding í maí árið 2008. Magnús Arnar, sem ákærður er fyrir umboðssvik, er ásamt Lárusi Welding, fyrrverandi forstjóra Glitnis, með stöðu aðalmanns í málinu. Aurum-málið var þingfest í Héraðsdómi Reykjavíkur á mánudag í síðustu viku.

Magnús er einn sjö fyrrverandi framkvæmdastjóra Glitnis sem fékk nokkuð hundruð milljóna króna að láni til hlutabréfakaupa á árunum fyrir hrun. Samtals námu heildarlán til þeirra í kringum fimm milljörðum króna. Um var að ræða gengislán sem stökkbreyttust þegar krónan féll.

Gjalddagi var í fyrra

Félag Magnúsar var úrskurðað gjaldþrota 2. apríl í fyrra og lauk skiptum á því 28. desember síðastliðinn. Eina eign félagsins voru hlutabréfin í Glitni. Félagið tapaði 172 milljónum króna árið 2009 samkvæmt síðasta birta ársreikningi félagsins. Tapið skrifast að nær öllu leyti á vaxtagjöld og gengistap. Lán félagsins var í evrum á 9,99% vöxtum og stóðu skuldir í 1.378.138.569 krónum í lok árs 2009. Það var 171,6 milljónum krónum hærri skuldir en í lok árs 2008. Gjalddagi lána félags Magnúsar, sem og lána annarra fyrrverandi Glitnis-toppa, var í maí á síðasta ári.