*

föstudagur, 15. janúar 2021
Innlent 3. apríl 2020 06:31

Ákæru gegn Skúla vísað frá dómi

Lagaskilyrði voru ekki uppfyllt til að ákæra Skúla Gunnar Sigfússon fyrir skilasvik.

Jóhann Óli Eiðsson
Birgir Ísl. Gunnarsson

Máli héraðssaksóknara gegn Skúla Gunnari Sigfússyni, oft kenndum við Subway, og tveimur fyrrverandi stjórnendum fyrirtækja hans var vísað frá dómi í gær þar sem ákæra málsins uppfyllti ekki lagaskilyrði. Tæplega tíu milljón króna málskostnaður fellur á ríkissjóð. 

Mennirnir þrír, áðurnefndur Skúli Gunnar, Guðmundur Hjaltason, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjöstjörnunnar, og Guðmundur Sigurðsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Stjörnunnar, voru ákærðir fyrir skilasvik með því að millifæra fjármuni af reikningum félagsins EK1923 ehf. áður en það fór í þrot. Krafa um þrotaskipti var lögð fra mí 6. maí 2016 og úrskurður um efnið kveðinn upp 7. september sama ár.

Í fyrsta lagi laut ákæran að því að Skúli og Hjaltason hefðu látið millifæra 21,3 milljónir króna inn á reikning Sjöstjörnunar í mars 2016. Í öðru lagi var ákært fyrir framsal á kröfu á hendur ríkinu vegna úthutunar tollkvóta, alls 24,6 milljónir króna. Sá þáttur málsins laut að Skúla og Sigurðssyni. Að endingu var ákært fyrir greiðslur í ágúst 2016 til tveggja erlendra birgja. 

Í ákæru málsins var háttsemin heimfærð undir skilasvikaákvæði hegningarlaganna, nánar tiltekið 4. tl. 1. mgr. 250. gr., en aðeins skal höfða slíkt mál ef sá sem misgert var við krefst þess. Á það við ef brot hefur verið framið án þess að nokkur sérstaklega tryggður réttur sé skertur eða án þess að árangurslaus aðfarargerð, gjaldþrot eða samningsráðstafanir um nauðasamning án gjaldþrotameðferðar hafi á eftir fylgt.

Í úrskurði dómsins var bent á að í fyrsta tölulið ákæru hefði greiðslan ekki skert nokkurn sérstaklega tryggðan rétt, árangurslaust fjárnám hefði ekki fylgt og tengdist það ekki greiðslunni sem ákært var fyrir. 

„Samkvæmt þessu voru ekki lagaskilyrði til að gefa út ákæru nema fyrir lægi refsikrafa þess sem taldi misgert við sig. Skiptastjóri þrotabús EK1923 ehf. kærði ákærðu 9. janúar 2017 og krafðist þess að þeim yrði refsað. Þrotabúið er ekki sá sem misgert var við samkvæmt framansögðu og með því að ekki var gerð refsikrafa í málinu brast lagaskilyrði til að gefa út ákæru,“ segir í úrskurðinum. Hið sama gilti um hina ákæruliðina tvo. 

Málið var höfðað í nóvember á síðasta ári en allur sakarkostnaður var lagður á ríkissjóð, þar með taldar þóknanir til verjenda mannanna, ríflega 3,2 milljónir króna til hvers þeirra.