Saksóknari hefur ákveðið að áfrýja til Hæstaréttar nýlegum dómi yfir Benedikt Eyjólfssyni, oftast kenndum við Bílabúð Benna, að því er segir í frétt Vísis . Benedikt var á dögunum dæmdur til greiðslu 750.000 króna sektar fyrir að hafa ekki skilað inn ársreikningum til ársreikningaskrár fyrir vegna uppgjörsáranna 2006 til 2010 fyrr en of seint.

Saksóknari telur þennan dóm alltof vægan en hann fór fram á þriggja mánaða fangelsi og 5 milljón króna sekt fyrir brot Benedikts í héraðsdómi.

Í dómi Héraðsdóms segir m.a. að ekki sé fallist á þá vörn Benedikts að með birtingu ársreikninga sé brotið gegn eignarrétti hans. Dómurinn telur að einkahlutafélagið Bílabúð Benna falli undir gildissvið laga um ársreikninga nr. 3/2006 á því tímabili sem ákæra í málinu nær yfir og hafi Benedikt sem framkvæmdastjóri þess borið ábyrgð á því að skipulag og starfsemi félagsins væri í góðu horfi. Í því fólst m.a. að honum bar að hlutast til um að ársreikningur einkahlutafélagsins yrði sendur ársreikningaskrá eigi síðar en mánuði eftir samþykkt reiknings. Þá hafi Benedikt vanrækt og hann því gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök.