Á mánudag sagði Michael Flynn af sér sem þjóðaröryggisráðgjafi Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna ásakana um að hann hefði rætt refsiaðgerðir Bandaríkjanna á hendur Rússum við sendifulltrúa landsins áður en Trump tók við embætti.

Í gær þriðjudag sagði talsmaður Hvíta hússins að forsetinn hefði vitað fyrir nokkrum vikum að endurtekin símtöl Flynn við rússneska sendifulltrúa gætu verið vandamál.

Samskipti í heilt ár

Komið hefur í ljós að skrár yfir símtöl ásamt upptökum sýna að liðsmenn kosningabaráttu Trump hefðu haft endurtekin samskipti við valdamikla menn í rússnesku leyniþjónustunni í heilt ár fyrir kosningarnar.

Á hinn bóginn hefðu engar sannanir komið fram um að kosningabarátta Trump hefði unnið með Trump í því að brjótast inn í tölvukerfi Demókrata eða til að hafa áhrif á kosningarnar.

Neitar að hafa brotið lög

Flynn sem er fyrrum herforingi hefur neitað því að hafa rætt refsiaðgerðirnar áður en hann var skipaður þjóðaröryggisráðgjafi, en slíkt hefði verið ólöglegt fyrir hann að gera samkvæmt bandarískum lögum.

Starfandi ríkissaksóknari Bandaríkjanna, Sally Yates, hafði varað hvíta húsið við samskiptunum og að Flynn gæti verið undir áhrifum frá Rússlandi.

Repúblikanar taka undir ákall

Sumir leiðandi meðlimir í Repúblikanaflokki forsetans hafa tekið undir ákall um sjálfstæða rannsókn á samskiptunum, má þar nefna öldungadeildarþingmanninn Roy Blunt sem situr í nefnd þingsins um öryggismál, sem og John Cornyn sem er einn af helstu leiðtogum Repúblikana í efri deild þingsins.

Einnig hefur Devin Nunes nefndarformaður öryggismála í fulltrúadeildinni tekið undir ákall um rannsókn.

Öldungadeildarþingmaðurinn og fyrrum forsetaframbjóðandinn John McCain, hefur jafnframt sagt að upplýsingarnar vektu upp spurningar um hvað Trump hefði í huga gagnvart Rússlandi.