Þegar lífeyrissjóðirnir voru dregnir að aðgerðaborði ríkisstjórnarinnar síðastliðinn föstudag þótti mönnum sem framlag þeirra gæti orðið lykill að lausn þeirrar fjármálakreppu sem hér ríkti.

Fljótlega fór mönnum þó að verða ljóst að það yrði ekki á þeirra færi að rétta kúrsinn og með hverjum deginum fjarlægðust þeir aðgerðaborðið. Fulltrúar lífeyrissjóðanna áttu fund með fulltrúum Seðlabankans, Fjármálaeftirlitsins og fjármálaráðuneytisins í fjármálaráðuneytinu í gær og var þar ætlunin að veita svar við aðgerðaáætlun sem sjóðirnir lögðu fram á laugardaginn, í kjölfar óskar ríkisstjórnarinnar um að þeir færðu eitthvað af erlendum eignum sínum heim. Það var Baldur Guðlaugsson ráðuneytisstjóri sem stýrði fundinum.

Ætlunin hafði verið að hittast á sunnudaginn en málefni bankanna gerðu það að verkum að fresta varð fundinum og sáu fulltrúar lífeyrissjóðanna fljótlega að aðkoma þeirra skipti ekki höfuðmáli lengur. Þeir sáu að ekki yrði gengið frá neinu gagnvart þeim nema í stærra samhengi.

Eftir því sem komist verður næst lögðu lífeyrissjóðirnir fram aðgerðaáætlun í 15 liðum sem svar við ósk ríkisins. Að sögn Arnars Sigurmundssonar, formanns stjórnar Landssamtaka lífeyrissjóða, var fremur um að ræða aðgerðaáætlun en skilyrði.

_______________________________________

Nánar er fjallað um  málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum. Þeir áskrifendur sem ekki hafa sótt um aðgangsorð til að lesa blaðið á vefnum geta gert það hér .