Ekki stendur til að ákæra fyrrum forstjóra bandaríska tryggingarisann AIG samkvæmt Bloomberg fréttaveitunni.

Bandarísk stjórnvöld þurftu að taka tryggingafyrirtækið yfir á árinu 2008 þegar alþjóðlega fjármálakerfið nötraði og veita því aðgang að 180 milljörðum dollara til að forða því frá falli. Í kjölfarið hófst opinber rannsókn á æðstu stjórnendum fyrirtækisins á vegum saksóknara og bandaríska fjármálaeftirlitsins (SEC).

Eftir tveggja ára rannsókn á störfum fyrrum forstjórans, Joseph Cassano, þar sem lögð var áhersla á ummæli hans og annarra æðstu stjórnenda fyrirtækisins árið 2007, hefur ekki enn leitt til ákæru. Megintilgangurinn var að kanna hvort forstjórinn fyrrverandi hefði gefið rangar upplýsingar um verðmæti skuldatrygginga sem tengdar voru bandaríska húsnæðismarkaðnum.

Lögmaður Cassano segir í yfirlýsingu samkvæmt Bloomberg að þrátt fyrir að erfitt sé fyrir skjólstæðing sinn að sitja undir tveggja ára stífri rannsókn þá sé niðurstaðan viðeigandi þar sem forstjórinn hafi alltaf talið sig saklausan.

Hann segir að fagmannlega hafi verið staðið að rannsókninni og Cassano sé þakklátur fyrir að rannsakendur fylgdu eftir vísbendingum til að komast til botns í málinu. „Þessi niðurstaða fæst af tveimur ástæðum; umbjóðandinn minn er saklaus og ákæruvaldið og rannsakendur eru réttlátir. Kerfið virkaði," sagði Warin lögmaður Cassano.