Ákæra setts ríkissaksóknara á hendur Baldri Guðlaugssyni fyrir innherjasvik eru í sex liðum. Ákæruna má sjá í heild sinni hér .

„Settur ríkissaksóknari gjörir kunnugt að höfða ber mál fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur á hendur Baldri Guðlaugssyni fyrir innherjasvik í opinberu starfi sem ráðuneytisstjóri fjármálaráðuneytisins, með því að hafa 17. og 18. september 2008, selt öll hlutabréf sín í Landsbanka Íslands hf., alls 9.059.809 hluti fyrir samtals 192.658.716 krónur, þrátt fyrir að hafa þá búið yfir innherjaupplýsingum um bankann sem hann varð áskynja um í starfi sínu sem ráðuneytisstjóri, einkum í tengslum við setu sína í samráðshópa fulltrúa forsætisráðuneytis, fjármálaráðuneytis, viðskiptaráðuneytis, Fjármálaeftirlits og Seðlabanka Íslands um fjármálastöðugleika og viðbúnað,“ segir í upphafi ákærunnar.

Í ákærunni eru listuð sex atriði sem teljast innherjaupplýsingar og komu til umræðu á sex fundum samráðshópsins frá 22. júlí 2008 til 16. september 2008.