Fjárfestingafélagið Fiskisund, sem Einar Örn Ólafsson stjórnarformaður Play fer fyrir, er orðið stærsti einstaki hluthafi flugfélagsins eftir hlutafjárútboð Play sem lauk fyrir tveimur vikum. Fiskisund var með um 11,86% hlut fyrir útboðið en hluturinn er nú kominn í 8,64% eftir að félagið gaf út nýtt hlutafé fyrir um 32% hlut í útboðinu.

Svo virðist sem Fiskisund hafi keypt um 3,8 milljónir hluti fyrir ríflega 95 milljónir króna . Hlutur Fiskisunds nemur um 1,5 milljörðum króna að markaðsvirði, miðað við núverandi hlutabréfagengi Play.

Þrír sjóðir í stýringu hjá Akta fara samtals með tæplega 11% hlut í Play. Miðað við breytingar á hluthafalistanum má gera ráð fyrir að sjóðirnir hafi keypt fyrir um 450 milljónir króna í hlutafjárútboðinu.

Sjá einnig: Play 25%-39% yfir útboðsgenginu

Fyrir útboðið var lífeyrissjóðurinn Birta stærsti hluthafinn með 12,55% hlut. Birta tók ekki þátt í útboðinu og á því í dag 8,57% hlut. Birta og Lífsverk voru einu lífeyrissjóðirnir sem tóku þátt í lokuðu hlutafjárútboði Play í apríl og er sá síðarnefndi með um 2,9% hlut í dag.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku fékk Frjálsi lífeyrissjóður úthlutað 240 milljónum króna að kaupverði í útboðinu. Lífeyrissjóður bankamanna og Lífeyrissjóður bænda fengu hvort um sig 25 milljóna króna hlut og LSRB fékk 15 milljóna króna hlut. Tólf lífeyrissjóðir tóku ekki þátt í útboðinu og Festa tók þátt en fékk ekki úthlutun.