*

fimmtudagur, 27. janúar 2022
Innlent 9. júlí 2021 10:50

Akta sjóðir og Fiskisund stærst í Play

Þrír sjóðir í stýringu hjá Akta fara samtals með 11% hlut í Play og Fiskisund er með 8,6% hlut.

Ritstjórn
Einar Örn Ólafsson, stjórnarformaður Play, fer fyrir fjárfestingafélaginu Fiskisund.
Birgir Ísl. Gunnarsson

Fjárfestingafélagið Fiskisund, sem Einar Örn Ólafsson stjórnarformaður Play fer fyrir, er orðið stærsti einstaki hluthafi flugfélagsins eftir hlutafjárútboð Play sem lauk fyrir tveimur vikum. Fiskisund var með um 11,86% hlut fyrir útboðið en hluturinn er nú kominn í 8,64% eftir að félagið gaf út nýtt hlutafé fyrir um 32% hlut í útboðinu.

Svo virðist sem Fiskisund hafi keypt um 3,8 milljónir hluti fyrir ríflega 95 milljónir króna . Hlutur Fiskisunds nemur um 1,5 milljörðum króna að markaðsvirði, miðað við núverandi hlutabréfagengi Play.

Þrír sjóðir í stýringu hjá Akta fara samtals með tæplega 11% hlut í Play. Miðað við breytingar á hluthafalistanum má gera ráð fyrir að sjóðirnir hafi keypt fyrir um 450 milljónir króna í hlutafjárútboðinu.

Sjá einnig: Play 25%-39% yfir útboðsgenginu

Fyrir útboðið var lífeyrissjóðurinn Birta stærsti hluthafinn með 12,55% hlut. Birta tók ekki þátt í útboðinu og á því í dag 8,57% hlut. Birta og Lífsverk voru einu lífeyrissjóðirnir sem tóku þátt í lokuðu hlutafjárútboði Play í apríl og er sá síðarnefndi með um 2,9% hlut í dag.

Líkt og Viðskiptablaðið sagði frá í síðustu viku fékk Frjálsi lífeyrissjóður úthlutað 240 milljónum króna að kaupverði í útboðinu. Lífeyrissjóður bankamanna og Lífeyrissjóður bænda fengu hvort um sig 25 milljóna króna hlut og LSRB fékk 15 milljóna króna hlut. Tólf lífeyrissjóðir tóku ekki þátt í útboðinu og Festa tók þátt en fékk ekki úthlutun.

Stikkorð: Play Birta Akta sjóðir Fiskisund