Framtakssjóðurinn Akur fjárfestingar, sem er í rekstri Íslandssjóða og í eigu lífeyrissjóða og Íslandsbanka, hefur afhent hluthöfum sínum helming af bréfum sínum í Ölgerðinni. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Akur, sem átti tæplega 12,8% hlut í Ölgerðinni fyrir viðskiptin, á nú 6,39% hlut með beinum hætti. Hinn 6,39% hlutur sjóðsins í félaginu hefur verið afhentur til hluthafa Akurs, en viðskiptin áttu sér stað þriðjudaginn 29. nóvember.

Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti hluthafi Akurs, með 19,9%. Þá á Gildi lífeyrissjóður 17,07% hlut og Birta lífeyrissjóður 10% hlut. Íslandsbanki á 14% hlut í Akri.