Eignarhaldsfélagið Akur, sem KEA á 50% eignarhlut í, hefur selt öll hlutabréf sín í hugbúnaðarfyrirtækinu Stefnu á Akureyri. Kaupendur eru lykilstarfsmenn auk annarra fjárfesta. Akur keypti félagið fyrir um tveimur árum og hefur rekstur félagsins breyst mikið til batnaðar síðan þá, sagði Árni Kár Torfason, framkvæmdastjóri Stefnu.

Stefna er sérhæft hugbúnaðarfyrirtæki með megináherslu á netlausnir s.s. vefsíðugerð. Að sögn Árna er félagið eina sérhæfða hugbúnaðarfyrirtækið sem starfandi er á Norðurlandi í dag. Velta félagsins nam um það bil 65 milljónum króna á síðasta ári og var afkoma þess jákvæð að sögn Árna. Hjá félaginu eru átta starfsmenn. Meðeigendur KEA í eignarhaldsfélaginu Akur eru starfsmenn Þekkingar ehf.